Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin heimasuna okkar. Vi notum vefkkur (e. cookies) til ess a bta upplifun na og greina umfer um suna. Me v a nota vefsuna samykkir notkun vefkkum og skilmla okkar.
Opna valmynd Loka valmynd
 
 

Opið

mánudaga til föstudaga
frá kl. 8 til 17
Nánari upplýsingar
& pöntunarsími
511 4111

Hafa samband


Áhugavert lesefni

 

12. október 2009 - Kl. 14:13
Heilablóðfall

Heilablóðfall

 

Heilablóðfall eða heilaslag er afleiðing skyndilegrar og varanlegrar truflunar á blóðflæði til heilasvæða af völdum æðasjúkdóma.
Blóðflæðitruflunin getur orsakast af stíflu í heilaslagæð af völdum blóðtappa (heiladrep) eða því að æð brestur og blæðir í heilavefinn (heilablæðing).
Í báðum tilvikum líða heilafrumur, sem æðin nærir súrefnisskort, auk skorts á öðrum nauðsynlegum næringarefnum. Hluti heilafrumanna deyr, en starfsemi annarra raskast.
Stundum koma einkenni um heilablóðfall einungis fram í stuttan tíma og er þá talað um skammvinna blóðþurrð í heila. Ýmsir sjúkdómar geta stuðlað að heilablóðfalli. Einkennin sem koma fram eru háð staðsetningu og stærð skemmdarinnar í heilanum.


Tíðni hækkar með hækkandi aldri

Rannsóknir á Íslandi hafa leitt í ljós, að um 600 einstaklingar fá heilablóðfall  árlega. Meðalaldur þeirra er tæplega 70 ár og er þorri sjúklinga eldri
en 65 ára. Heldur fleiri karlar en konur fá heilablóðfall hérlendis. Tíðni heilablóðfalla er mjög háð aldri.
Rannsóknir Hjartaverndar benda til að árleg tíðni um 50 ára aldur sé um 3 af hverju þúsundi en um áttrætt er tíðnin komin upp í 12 af þúsundi.
Heilablóðfall er þriðja algengasta dánarorsökin á Íslandi. Það veldur dauða hjá um 8% karla og kvenna.

Einkenni heilablóðfalls

Engir tveir einstaklingar fá sömu einkenni jafnvel þótt ástæður fyrir heilablóðfallinu geti verið þær sömu.
Staðsetning skemmdarinnar í heilanum er lykilatriði og sömuleiðis hve stór hún er. Aldur og fyrra heilsufar hafa einnig áhrif.  Heilinn er stjórnstöð fyrir alla starfsemi líkamans. Staðbundin skemmd á ákveðnum svæðum veldur starfstruflun á ákveðnu líkamssvæði eða á sérhæfðri líkamsstarfsemi.
Hægra hvel heilans stjórnar vinstri hluta líkamans og öfugt. Auk þess að stjórna hægri hlið líkamans, hefur vinstra heilahvel að geyma málstöðvar heilans. Því
getur skemmd í vinstra heilahveli valdið bæði lömun í hægri hlið líkamans og tjáskiptavandamálum. Ýmis síðbúin vandamál geta komið eftir bráðastigið, svo sem þunglyndi og flogaköst. Afleiðingar og einkenni geta því verið margvísleg.

Byrjunareinkenni og afleiðingar heilablóðfalls

Dofi, kraftminnkun eða lömun í annarri hlið líkamans. Einkennin geta verið bundin við handlegg, hönd, fótlegg eða náð yfir alla hliðina
Taltruflanir svo sem óskýrmæli, erfiðleikar við að finna rétt orð eða mynda setningar. Stundum skerðist skilningur á töluðu máli. Erfiðleikar við að lesa og skrifa geta einnig komið fram
Erfiðleikar við að borða og kyngja
Skert sjón í helmingi eða hluta sjónsviðs
Skortur á einbeitingu og minnistruflanir
Skyntruflanir, svo sem skert tímaog afstöðuskyn
Grátgirni, trufluð tilfinningastjórnun og persónuleikabreytingar
Verkstol, þ.e. skert geta til að framkvæma ýmsa hluti
Gaumstol, þ.e. menn vilja gleyma þeim líkamshelmingi sem er lamaður og nota hann ekki, jafnvel þótt þeir geti hreyft hann
Truflun á þvagstjórn

HEILABLÓÐFALL VERÐUR AÐ MEÐHÖNDLA STRAX

Mikilvægt er að leita aðstoðar sem fyrst og hefja læknismeðferð. Hringið í lækni, jafnvel þótt einkenni virðist vera að ganga til baka. Hringið á neyðarbíl í síma: 112, ef einkenni fara versnandi. Byrjunareinkenni geta verið skyndilegur slæmur höfuðverkur, ógleði, uppköst eða skert meðvitund auk framangreindra atriða.

 

unnið úr bæklingi frá Hjartavernd www.hjartavernd.is

 

Allt efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar.
Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.